Íbúðaúrræði í Reykjanesbæ – Stapavellir 16 til 28.
Miðvikudaginn 20. september 2023 var því fagnað að 7 nýjar þjónustuíbúðir að Stapavöllum væru tilbúnar í Reykjanesbæ sem eru sérhannaðar fyrir öryrkja með mikla þjónustuþörf. Reykjanesbær bauð til kaffisamsætis með tilvonandi íbúum og ýmsum öðrum sem tengjast þessu verkefni. Á eftir athöfninni var svo öllum boðið að skoða íbúðirnar að Stapavöllum og voru allir sammála um að einstaklega vel hefði tekist til við hönnun og byggingu hússins.
Byggingarverkefnið að Stapavöllum 16-28 hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Árið 2019 var gengið frá samkomulagi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Reykjanesbæ um verkefnið sem er fjármagnað með stofnframlögum, eiginfjárframlagi Brynju og langtímalánum. Arkitekt hússins er Birgir Teitsson hjá Arkís arkitektum og var tekið mið af því við hönnun íbúðanna að um væri að ræða íbúðir fyrir leigjendur sem myndu fá þjónustu frá sveitarfélaginu. Verkefnið var boðið út í byrjun árs 2022 og var það Sparri í Reykjanesbæ sem var með lægsta tilboðið. Eftirlitsaðili Brynju með verkefninu var Sigurður Ásgrímsson byggingartæknifræðingur hjá TSÁ í Reykjanesbæ. Samstarf Brynju við Sparra var einstaklega gott á byggingartímanum. Þeir Halldór og Arnar Jónssynir sem eru eigendur Sparra, starfsmenn þeirra og undirverktakar hafa staðið sig frábærlega við byggingu og frágang hússins á Stapavöllum.
Brynja er búin að leigja sex íbúðanna til öryrkja en sjöunda íbúðin er leigð af Reykjanesbæ sem aðstaða fyrir þá starfsmenn sem veita íbúum þessa úrræðis þjónustu. Gengið var frá leigusamningi milli Reykjanesbæjar og Brynju vegna starfsmannaíbúðarinnar og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri af þeim Heru Ósk Einarsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs hjá Reykjanesbæ og Guðbrandi Sigurðssyni framkvæmdastjóra Brynju.